Guðrún með takmarkaðan keppnisrétt

Guðrún Brá Björgvinsdóttir á mótinu á La Manga.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir á mótinu á La Manga. Ljósmynd/LET Tristan Jones

Guðrún Brá Björgvinsdóttir verður með takmarkaðan keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna í golfi en hún lauk í dag fimmta og síðasta hringnum á lokaúrtökumótinu á La Manga á Spáni.

Guðrún lék lokahringinn í dag á 73 höggum, á pari vallarins. Hún er sem stendur í 42. til 45. sæti þegar örfáir kylfingar eiga eftir að ljúka keppni.

Hún kemst ekki í hóp þeirra 20 efstu sem fá fullan keppnisrétt á mótaröðinni, eins og hún hefur haft undanfarin tvö ár. Þær sem enda í 21. til 50. sætinu í dag fá takmarkaðan keppnisrétt og ljóst er að Guðrún verður í þeim hópi.

Hringina fimm lék hún á samtals tveimur höggum yfir pari vallanna tveggja sem keppt var á. Til að ná í hóp 20 efstu og ná fullum keppnisrétti hefði hún þurft að leika á samtals þremur höggum undir pari.

Uppfært:
Allar hafa lokið keppni og Guðrún endar í 42.-46. sæti. 

mbl.is