Magnaður endasprettur Spánverjans

Jon Rahm brosmildur eftir sigurinn á Havaí í nótt.
Jon Rahm brosmildur eftir sigurinn á Havaí í nótt. HARRY HOW/Harry How

Spænski kylfingurinn Jon Rahm tryggði sér sigur á fyrsta PGA-móti ársins í golfi, Tournament of Champions, á Havaí í nótt með glæsilegum endaspretti.

Hann sigldi fram úr Bandaríkjamanninnum Collin Morikawa á lokahringnum eftir að hafa byrjað hann sex höggum á eftir honum.

Rahm lék hringinn á aðeins 63 höggum, tíu höggum undir pari vallarins, og vann mótið á 27 höggum undir pari, tveimur á undan Morikawa.

Þetta er þriðji sigur Spánverjans á síðustu sex mótum sem hann tekur þátt í en hann vann bæði mót á Spáni og í Dúbaí seint á síðasta ári. Rahm vann enn fremur Opna bandaríska mótið, US Open, árið 2021.

Tournament of Champions er fyrsta af þrettán PGA-mótum á þessu sem verða sérstaklega sterk og aðeins með 39 keppendum hvert. Þar verða hærri sigurlaun en á öðrum mótum.

mbl.is