McIlroy vann eftir kalt stríð við Reed

Rory McIlroy með verðlaunagripinn eftir sigurinn í Dubai í dag.
Rory McIlroy með verðlaunagripinn eftir sigurinn í Dubai í dag. AFP/Karim Sahib

Norður-Írinn Rory McIlroy fer vel af stað á árinu 2023 en hann bar sigur úr býtum á Dubai Desert Classic golfmótinu á Evrópumótaröðinni sem lauk í dag í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

McIlroy vann eftir harðan slag við Bandaríkjamanninn Patrick Reed og lék á 19 höggum undir pari samtals en Reed á 18 höggum undir pari.

Mótið tók fimm daga í stað fjögurra eftir að gera þurfti hlé á því vegna úrhellisrigningar. Þetta er í þriðja sinn sem McIlroy vinnur Dubai Desert Classic en það gerði hann árður 2009 og 2015.

Væringar milli McIlroys og Reeds

Sigurinn var sérstaklega sætur fyrir McIlroy eftir væringar milli hans og Reeds en McIlroy hefur verið afar ósáttur við þátttöku Bandaríkjamannsins og fleiri kylfinga á hinni umdeildu LIV-mótaröð.

Rory McIlroy á lokahringnum í dag.
Rory McIlroy á lokahringnum í dag. AFP/Karim Sahib

McIlroy er stærsta stjarna PGA-mótaraðarinnar í dag og hefur leitað leiða fyrir PGA til að halda sinni stöðu sem fremsta mótaröð heims, í samkeppninni við LIV, sem er fjármögnum af sádiarabískum aðilum.

Fyrr á mótinu hunsaði McIlroy tilraunir Reeds til að tala við hann, með þeim afleiðingum að Reed reiddist og kastaði golftíi að honum. McIlroy skýrði frá því í mótslok að hann hefði verið kallaður sem vitni af lögfræðingum Bandaríkjamannsins um jólin vegna málsóknar hans á hendur PGA-mótaröðinni fyrir niðrandi ummæli í sinn garð.

mbl.is