Dómstóll GSÍ staðfestir árs bann þriggja eldri kylfinga

Margeir Vilhjálmsson.
Margeir Vilhjálmsson. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Dómstóll Golfsambands Íslands, GSÍ, hefur staðfest úrskurð aganefndar sambandsins um 12 mánaða keppnisbann kylfinganna Margeirs Vilhjálmssonar, Kristjáns Ólafs Jóhannessonar og Helga Svanbergs Ingasonar eftir að þeim var vísað úr Íslandsmóti eldri kylfinga á síðasta ári.

Aganefnd GSÍ úrskurðaði þremenningana í 12 mánaða bann frá keppni frá 30. september 2022.

Þremenningarnir voru allir hluti af ráshópi nr. 16 á Íslandsmótinu á Jaðarsvelli á Akureyri í júlí síðastliðnum.

Kristján og Helgi fengu báðir almennt víti eftir að hafa tekið æfingarpútt í kjölfar þess að hafa púttað í 17. holu og tilkynnti Tryggvi Jóhannsson dómari þeim um það.

Samkvæmt staðarreglum sem voru í gildi á mótinu var óheimilt að taka æfingarpútt og viðurlög við því tvö högg í almennt víti.

Margeir var dómi Tryggva fyllilega ósammála og sagði fyrir dómstól að hann hafi ekki tilkynnt sér að hann ætti að skrá vítahögg.

Þar sem ráshópnum láðist að tilkynna almenn víti á skorkortum sínum var þremenningunum vísað úr mótinu og í framhaldi af því kærðir af mótsstjórninni til aganefndar GSÍ.

Margeir og Kristján kærðu úrskurð aganefndar til dómstóls GSÍ en Helgi gerði það ekki.

Þótti dómstól GSÍ sannað að óumdeilt væri að Kristján og Helgi hafi endurtekið pútt á 17. holu eftir að leik var þar lokið og vísaði til að mynda til framburðar Kristjáns sjálfs fyrir dómi að Tryggvi dómari hafi tilkynnt honum að um víti væri að ræða, þó Kristján hafi borið því við að hann hafi talið um ábendingu en ekki úrskurð um víti hafi verið að ræða.

Bann Margeirs, Kristjáns og Helga stendur því og er í gildi til 30. september á þessu ári.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert