Loksins féll vallarmetið á The Players Championship

Tom Hoge gat leyft sér að brosa eftir hringinn í …
Tom Hoge gat leyft sér að brosa eftir hringinn í kvöld. AFP/ Cliff Hawkins

Vallarmetið á hinum fræga TPC Sawgrass-velli á Flórída féll í kvöld á þriðja hringnum á The Players Championship á PGA-mótaröðinni í golfi.

Margir heimsþekktir kylfingar hafa leikið völlinn á The Players mótinu á 63 höggum sem er níu högg undir pari vallarins. Þar virðist sem myndast hafi eins konar veggur í gegnum tíðina eða þar til í kvöld þegar Tom nokkur Hoge lék á tíu höggum undir pari eða á 62 höggum. 

Tom Hoge er 33 ára gamall Bandaríkjamaður og hefur aðeins einu sinni unnið mót á PGA mótaröðinni en hefur alls unnið fjögur atvinnumannamót. Undirstrikar þetta hve mikil samkeppnin er í golfheiminum þar sem mörg hundruð kylfingar hafa geysilega hæfileika í íþróttinni. 

Hoge rétt komst í gegnum niðurskurð keppenda eftir tvo hringi eða 36 holur. Hann gat því sótt í dag og leikið afslappaður. Skorið skilar honum inn á topp tíu listann fyrir lokahringinn á samtals 8 undir pari og var hann því á tveimur yfir pari fyrir hringinn í dag. 

Scottie Scheffler er efstur fyrir lokadaginn.
Scottie Scheffler er efstur fyrir lokadaginn. AFP/Jared C. Tilton

Efstur er Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler sem er annar á heimslistanum og gæti náð efsta sætinu þegar mótinu lýkur á mótinu. Scheffler lék á 65 höggum í dag og er samtals á 14 undir pari og hefur tveggja högga forskot. 

Eftir um 17 þúsund hringi á The Players komst kylfingur loksins undir 63 höggin. Alls höfðu níu leikið á 63 en vallarmetið setti hinn vinsæli Fred Couples árið 1992. Þeir sem höfðu jafnað vallarmetið voru Greg Norman, Roberto Castro, Martin Kaymer, Jason Day, Colt Knost, Webb Simpson, Brooks Koepka og Dustin Johnson.

Þess má geta að Hideki Matsuyama náði einnig að leika á 63 höggum árið 2020 en þá var mótinu aflýst í miðjum klíðum vegna kórónuveirunnar. Hann fær hringinn ekki skráðan í sögu The Players en ekki verður af honum tekið að hafa spilað Sawgrass á 63 höggum af teigunum sem notaðir eru á The Players. 

Fred Couples setti vallarmetið árið 1992 og því liðu þrjátíu …
Fred Couples setti vallarmetið árið 1992 og því liðu þrjátíu og eitt ár þar til það var slegið. Reuters
mbl.is