Brooks Koepka fer hamförum á Masters

Brooks Koepka hefur endurheimt sjálfstraustið á golfvellinum eftir mögur ár.
Brooks Koepka hefur endurheimt sjálfstraustið á golfvellinum eftir mögur ár. AFP/Petersen

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka hefur heldur betur nýtt sér heppilegar aðstæður á Augusta National vellinum og er á frábæru skori eftir 36 holur á Masters mótinu í golfi í Georgíu í Bandaríkjunum. 

Koepka var einn þriggja sem lék á 65 höggum í gær og fór snemma út í dag. Hann fylgdi góðum hring eftir með öðrum góðum og lék á 67 höggum. Er hann samtals á 12 höggum undir pari vallarins sem er mjúkur og auðveldari viðureignar en vanalega. Óvenjulegt er að kylfingar nái tveggja stafa tölu undir pari eftir tvo hringi á Masters. 

Koepka er með þriggja högga forskot á Ástralann Jason Day sem stendur en Day er úti á velli og hefur leikið 14 holur. Báðir slógu þeir frábærlega í dag og hefðu getað fengið fleiri fugla. Besti árangur Koepka á Masters er 2. sæti árið 2019. Hann hefur hins vegar unnið bæði Opna bandaríska meistaramótið og PGA-meistaramótið. 

Öðrum hringnum lýkur í kvöld og ekki eru allir kylfingarnir farnir af stað á öðrum keppnisdegi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert