Axel efstur fyrir lokahringinn

Axel Bóasson.
Axel Bóasson. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr GK, er í efsta sæti á Thomas Björn Samsö Classic-mótinu sem fer nú fram á Samsö-golfvellinum í Danmörku.

Mótið er hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni, sem er í þriðja sterkasta mótaröð Evrópu í karlaflokki.

Axel fór vel af stað er hann lék á þremur höggum undir pari á fyrsta hring í gær.

Í dag lék svo hann stórkostlega öðrum hring af þremur, á níu höggum undir pari vallarins.

Fékk Axel sjö fugla og einn örn í dag.

Þar af leiðandi er hann fremstur meðal jafningja í efsta sæti mótsins, á tólf höggum undir pari fyrir lokahringinn á morgun.

Er Axel búinn að leika hringina tvo á alls 132 höggum, 69 á fyrsta hring og 63 á öðrum hring.

Tveir Íslendingar til viðbótar taka þátt á Thomas Björn Samsö Classic-mótinu, þeir Bjarki Pétursson og Andri Þór Björnsson.

Á stigalista Nordic Golf League mótarðarinnar er Axel í 8. sæti eftir að hafa leikið á alls níu mótum á þessu tímabili.

Bjarki hefur leikið á sjö mótum og er í 28. sæti á stigalistanum og Andri Þór hefur leikið á átta mótum og er í 75. sæti á stigalistanum.

mbl.is