Grátlegt tap í bráðabana

Axel Bóasson.
Axel Bóasson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr GK, varð að gera sér annað sætið að góðu á Thomas Björn Samsö Classic-mótinu sem fram fór á Samsö-golfvellinum í Danmörku.

Axel var efstur að loknum tveimur hringjum af þremur í gær og var með tveggja högga forskot þegar níu holur voru eftir af þriðja og síðasta hring í dag.

Daninn Sebastian Wiis náði hins vegar að jafna metin á síðustu holunum og voru Axel og Wiis því jafnir í efstu tveimur sætunum að loknum þremur hringjum, báðir á 17 höggum undir pari.

Því þurfti bráðabana til þess að knýja fram sigurvegara, þar sem Wiis hafði betur.

Mótið er hluti af Nordic Golf League at­vinnu­mótaröðinni, sem er þriðja sterkasta mótaröð Evr­ópu í karla­flokki.

Á Thomas Björn Samsö Classic-mótinu tóku tveir Íslendingar til viðbótar þátt, Bjarki Pétursson úr GKG og Andri Þór Björnsson úr GR.

Bjarki varð jafn í tíunda sæti er hann lék níu höggum undir pari og Andri Þór hafnaði í 29. sæti á þremur höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert