Ryder-bikarinn í golfi, þar sem lið Bandaríkjanna og Evrópu etja kappi, hefst á morgun í Róm á Ítalíu. Eftirvæntingin er mikil hjá stuðningsmönnum Evrópuliðsins, sem tóku víkingaklappið á æfingu þess í gær.
Töluverður fjöldi stuðningsmanna hefur í gegnum tíðina lagt leið sína á æfingar kylfinganna og hvatt þá áfram í aðdraganda keppninnar.
Norski kylfingurinn Viktor Hovland tók þátt í víkingaklappinu með stuðningsmönnunum á æfingu í gær, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði:
Stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu vöktu heimsathygli fyrir víkingaklappið þegar velgengni liðsins stóð sem hæst fyrir nokkrum árum.
Stuðningsmenn evrópska liðsins í Ryder-bikarnum hafa áður gripið til víkingaklappsins, gerðu það til dæmis með norðurírska kylfingnum Rory McIlroy á meðan keppni í Ryder-bikarnum stóð árið 2018: