Svíinn vann sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni

Ludvig Åberg vann glæsilegan sigur um helgina.
Ludvig Åberg vann glæsilegan sigur um helgina. AFP/Sam Greenwood

Sænski kylfingurinn Ludvig Åberg stóð uppi sem sigurvegari á RSM Classic-mótinu á St. Simons-eyju í Georgíuríki í Bandaríkjunum, um helgina og vann þar með sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni.

Á mótinu lék hann á 29 höggum undir pari, fjórum höggum betur en Mackenzie Hughes frá Kanada, sem hafnaði í öðru sæti.

Åberg varð einungis atvinnukylfingur í júní á þessu ári, tók þá þátt á sínu fyrsta móti í PGA-mótaröðinni og er nú kominn í 32. sæti heimslistans.

Með sigrinum um helgina tryggði hann sér um leið sæti á sínu fyrsta stórmóti, Masters-mótinu í Augusta í Georgíu á næsta ári.

Hefur skotist upp á stjörnuhimininn

Åberg er 24 ára og hefur skotist upp á stjörnuhimininn á árinu með því að vinna mót á Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð Evrópu, í september síðastliðnum og standa sig í kjölfarið frábærlega með liði Evrópu í Ryder-bikarnum í lok september og byrjun október.

Åberg var mjög óvænt valinn af Luke Donald, fyrirliða Evrópu í Ryder-bikarnum, sem einn af þeim kylfingum sem fyrirliðinn má sérstaklega velja og þakkaði traustið með því að leika afskaplega vel með Norðmanninum Viktori Hovland.

Stóð evrópska liðið að lokum uppi sem sigurvegari Ryder-bikarsins með sannfærandi hætti.

Norðurírski kylfingurinn Rory McIlroy stóð uppi sem stigameistari á Evrópumótaröðinni í fimmta sinn á ferli sínum um helgina.

mbl.is