Trump og Musk gætu bjargað golfinu

Donald Trump og Elon Musk.
Donald Trump og Elon Musk. AFP/Jim Watson

Norðurírski kylfingurinn Rory McIlroy telur að kjör Donalds Trumps sem Bandaríkjaforseta, með stuðningi auðjöfursins Elons Musks, gæti hjálpað til við að greiða úr deilu PGA-mótaraðarinnar og LIV-mótaraðarinnar, golfíþróttinni til hagsbóta.

Mótaraðirnar tvær hafa beitt sér fyrir því að laða að sér bestu kylfinga heims. PGA-mótaröðin hefur í áranna rás gengið að því sem vísu á meðan LIV-mótaröðin hefur í krafti gífurlegs fjármagns frá Sádi-Arabíu tekist að lokka marga af þeim bestu yfir til sín á undanförnum árum.

McIlroy hefur verið afar gagnrýninn á LIV-mótaröðina en virðist farið að leiðast þófið og vill eins og flestir fá niðurstöðu í málið, þar sem einhvers konar sameining þætti æskilegust. Viðræður um slíkt hafa engan ávöxt borið.

Með gáfaðasta mann heims sér við hlið

Trump lét þau ummæli falla á dögunum að hann geti leyst málið á stundarfjórðungi.

„Hann gæti gert það. Hann er með Elon Musk, sem ég tel vera gáfaðasta mann heims, sér við hlið. Við gætum gert eitthvað í þessu ef við getum fengið Musk með okkur í þetta.

Ég held að ef við skoðum þetta utan frá er þetta líklega ekki jafn flókið og raunin er.  Trump á augljóslega gott samband við Sádi-Arabíu. Hann á í góðu sambandi við golf, hann elskar golf. Þannig að það gæti verið, hver veit?“ sagði McIlroy á fréttamannafundi í síðustu viku.

Tæki mig um 15 mínútur

Í hlaðvarpsþættinum Let‘s Go! sagði Trump á sunnudaginn í þarsíðustu viku, tveimur dögum áður en hann var kjörinn:

„Ég gæti örugglega komið því í kring. Ég myndi segja að það tæki mig um 15 mínútur að klára þann samning. Svo ég sé hreinskilinn er ég í raun og veru að fara að vinna að öðrum hlutum.

Ég tel okkur standa frammi fyrir miklu stærri vandamálum en þetta. En ég er á þeirri skoðun að við ættum að vera með eina mótaröð og að allir bestu kylfingarnir séu hluti af henni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert