Dagbjartur Sigurbrandsson, kylfingur GR og Missouri-háskólans, tryggði sér í nótt sæti á lokastigi úrtökumótsins fyrir opna bandaríska meistaramótið, US Open, eftir að hafa náð góðum árangri í undankeppni.
US Open er eitt af fjórum risamótum golfsins og mun Gunnlaugur Árni Sveinsson, kylfingur GKG og LSU-háskólans, einnig taka þátt í lokaúrtökumótinu þar sem hann er á meðal 50 efstu áhugakylfinga heims.
Undankeppnin fór fram á Gateway National Golf Links-vellinum í Illinois þar sem 120 kylfingar kepptu um sex laus sæti.
Dagbjartur hóf leik snemma morguns og lék á 69 höggum, tveimur undir pari, en þurfti að bíða langt fram eftir degi þar til úrslit lágu fyrir. Í lok dags endaði hann í bráðabana gegn fjórum öðrum kylfingum – þar sem aðeins tvö laus sæti voru í boði.
Bráðabaninn reyndist æsispennandi og fór fram seint um kvöldið, nánast í myrkri, en Dagbjartur stóð sig frábærlega og tryggði sér farseðilinn áfram eftir þriggja holu leik.
Næsta skref hjá Dagbjarti verður því 36 holu lokamót sem fram fer annaðhvort 19. maí eða 2. júní, þar sem hann freistar þess að komast inn á sjálft US Open, sem fram fer á Oakmont Country Club um miðjan júní.