Íslandsmeistarinn Aron Snær Júlíusson úr GKG endaði jafn í þriðja sæti á Bravo Tours-mótinu á Nordic-mótaröðinni í golfi um helgina en leikið var í Danmörku.
Aron lék á samanlagt níu höggum undir pari og var þremur höggum frá Finnanum Ilari Saulo sem bar sigur úr býtum.
Sigurður Arnar Grétarsson varð jafn í 13. sæti á samanlagt sjö höggum undir pari. Hlynur Bergsson endaði svo í 26. sæti á fimm höggum undir pari. Leika þeir einnig fyrir GKG.
Hákon Örn Magnússon úr GR komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi.