McIlroy með sögulegan árangur í sigtinu

Rory McIlroy hitar upp á Quail Hollow vellinum í Charlotte.
Rory McIlroy hitar upp á Quail Hollow vellinum í Charlotte. AFP/Jared C. Tilton

Bandaríska PGA-meistaramótið í golfi hófst núna klukkan 11 að íslenskum tíma á Quail Hollow-vellinum í Charlotte í Norður-Karólínu og þar eru margra augu á Rory McIlroy frá Norður-Írlandi.

Hann vann sitt fyrsta PGA-mót á þessum velli fyrir fimmtán árum og hefur þrívegis fagnað þar sigri eftir það, m.a. þegar hann setti vallarmet árið 2015 með því að leika hring á 61 höggi.

Norður-Írinn mætir sjóðheitur til leiks eftir að hafa unnið Masters-mótið í fyrsta skipti í síðasta mánuði og stefnir á að verða fyrsti kylfingurinn í tíu ár til að vinna tvö fyrstu stórmót ársins.

McIlroy fer af stað núna klukkan 12.22 og með honum í ráshópi eru engir viðvaningar því það eru Bandaríkjamennirnir Scottie Scheffler og Xander Schauffele.

Scheffler er efstur á heimslistanum um þessar mundir og Schauffele er ríkjandi meistari eftir að hafa unnið PGA-meistaramótið í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert