Kylfingurinn Andrea Bergsdóttir jafnaði á dögunum besta árangur Íslendings á LET-kvennamótaröðinni í golfi, þeirri næststerkustu í Evrópu, þegar hún hafnaði í þriðja sæti á Montauban-mótinu í Frakklandi.
Andrea, sem er 25 ára gömul, lék hringina þrjá á samtals sex höggum undir pari og er í dag í 9. sæti stigalista mótaraðarinnar en Valdís Þóra Jónsdóttir, fyrrverandi atvinnukylfingur, hafnaði einnig í þriðja sæti á móti á LET-mótaröðinni árið 2016.
Andrea hefur gert það mjög gott að undanförnu, en um næstsíðustu helgi hafnaði hún í fjórða sæti á Santander-mótinu á Spáni, sem er einnig hluti af LET-mótaröðinni, eftir að hafa verið með forystu á mótinu um tíma.
„Ég er mjög sátt með þennan árangur og ég einsetti mér að spila einfalt golf,“ sagði Andrea í samtali við Morgunblaðið.
„Ég spilaði mjög stöðugt golf og gerði fá mistök. Ég hitti brautina vel og flatirnar líka. Ég kom mér í góð færi og sem betur fer duttu púttin hjá mér líka. Ég passaði mig sérstaklega á því, á báðum mótunum, að fara ekki fram úr sjálfri mér. Ég hugsaði alltaf um eitt högg í einu.
Síðustu hringirnir á Spáni og Frakklandi voru ólíkir að mörgu leyti en ég fékk einhverja fimm fugla á síðustu holunum í Frakklandi, sem var virkilega gaman.
Ég er mjög ánægð með þennan árangur og ég hef reynt að stressa mig ekki um of á hlutunum, hef meira einblínt á það að hafa gaman af því sem ég er að gera,“ sagði Andrea.
Andrea hefur alla tíð búið í Svíþjóð, þar sem hún er fædd og uppalin, en hún lítur samt ekki á sig sem Svía.
„Ég er Íslendingur í húð og hár þó að ég sé fædd í Svíþjóð. Foreldrar mínir eru íslenskir og fluttu til Svíþjóðar fyrir meira en 30 árum. Við höfum reynt að heimsækja Ísland að minnsta kosti einu sinni á ári frá því að ég man eftir mér og það hefur oftast gengið eftir. Ég byrjaði að spila fyrir íslenska landsliðið árið 2017 og síðan þá hefur ferðunum til Íslands fjölgað eitthvað líka.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag