Evrópa marði sigur í keppninni um Ryder-bikarinn í golfi á milli Bandaríkjanna og Evrópu 15:13 á Bethpage Black vellinum í Bandaríkjunum í dag. Bandaríkjunum tókst hér um bil að éta upp risa forskot Evrópu á lokadeginum.
Bandaríkin þurftu á kraftaverki að halda því staðan var 11,5 - 4,5 eftir tvo fyrstu keppnisdagana en 14,5 vinninga þarf til að vinna bikarinn. Eftir ótrúlega baráttu Bandaríkjamanna í dag var Svíinn Ludvig Aberg sá eini í Evrópuliðinu sem vann leik í dag.
Jafnteflin voru hins vegar mörg og í leikjunum 11 voru einungis 3 þeirra sem ekki náðu á 18. flötina. Það er afar sjaldgæft og sýnir hversu jafnir leikirnir voru í dag og Bandaríkin áttu raunverulega möguleika á að stela sigrinum. Úrslitin í leikjum dagsins má sjá hér neðst í fréttinni.
Leikirnir hefðu átt að vera 12 en Viktor Hovland var ekki leikfær vegna meiðsla. Hann og Harris English áttu að mætast í síðasta leiknum en fengu hálfan vinning hvor.
Er þetta fyrsti útisigurinn í Ryder-bikarnum síðan 2012. Shane Lowry tryggði Evrópu fjórtánda stigið með fugli á 18. flötinni og hálfum vinningi gegn Russel Henley. Englendingurinn Tyrrell Hatton tryggði sigurinn með hálfum vinningi gegn Collin Morikawa.
Munurinn á liðunum í keppninni í ár var líklega hjá liðsstjórunum. Luke Donald gerði gæfumuninn og vann skákina gegn Keegan Bradley í fjórmenningi. Þar er vandasamt að finna menn til að spila saman en Evrópa burstaði leikina í fjórmenningi bæði á föstududegi og laugardegi. Bandaríkjamenn voru öllu skárri í fjórbolta þar sem báðir leika sinn bolta og velja betra skorið. En eins og oft áður í sögunni vinnur Evrópa Ryderbikarinn á því að ná í marga vinninga þegar tveir spila saman. Bandaríkjamenn eru gjarnan sterkari maður á móti manni á sunnudeginum eins og mbl.is hefur bent á og það kom heldur betur á daginn í dag.
Viðureignir dagsins:
1/0 Cameron Young - Justin Rose - leik lokið
1/0 Justin Thomas - Tommy Fleetwood - leik lokið
Bryson DeChambeau 1/2 Matt Fitzpatrick - leik lokið
1/0 Scottie Scheffler - Rory McIlroy - leik lokið
Patrick Cantlay - Ludvig Aberg 2/0 - leik lokið
4/3 Xander Schauffele - Jon Rahm - leik lokið
2/1 JJ Spaun - Sepp Straka - leik lokið
Russell Henley 1/2 Shane Lowry - leik lokið
1/0 Ben Griffin - Rasmus Hojgaard - leik lokið
Collin Morikawa 1/2 Tyrrel Hatton - leik lokið
Sam Burns 1/2 Robert MacIntyre - leik lokið
Harris English 1/2 Viktor Hovland - leik lokið