„Fóru líklega yfir strikið“

Collin Morikawa.
Collin Morikawa. AFP/Jared C. Tilton

Bandaríski kylfingurinn Collin Morikawa viðurkennir að líkast til hafi stuðningsmenn Bandaríkjanna farið yfir strikið þegar Bandaríkin og Evrópa öttu kappi í Ryder-bikarnum í lok síðasta mánaðar.

Norður-Írinn Rory McIlroy varð fyrir mesta aðkastinu þar sem hann mætti stöðugum fúkyrðaflaumi en auk þess var bjórglasi kastað í höfuð Ericu eiginkonu hans.

„Þeir fóru líklega yfir strikið. Það þarf að draga línuna einhvers staðar. Við þurfum að finna út úr því hvað telst ásættanlegt og hvað ekki,“ sagði Morikawa á fréttamannafundi.

Ekki á mína ábyrgð

Hann var svo inntur eftir því hvort mögulegt væri að Morikawa bæri einhverja ábyrgð á hegðan stuðningsmanna eftir að hafa fyrir mótið kallað eftir því að stuðningsmenn skyldu „skapa algjöran glundroða.“

„Keppni í Ryder-bikarnum á að einkennast af mikilli orku og það að ég hafi notað orðið „glundroði“ þýðir ekki að ég hafi kallað eftir dónaskap af þeirra hálfu.

Það er að ég tel ekki á mína ábyrgð, að axla ábyrgð á því að fólk hafi sýnt dónaskap,“ sagði Morikawa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka