Laddi í landsliðinu: Aldrei of seint

Laddi er ekki aðeins góður grínisti og leikari.
Laddi er ekki aðeins góður grínisti og leikari. Ljósmynd/Borgarleikhúsið

Grínistinn góðkunni Laddi heldur áfram að koma landsmönnum á óvart. Sýning hans, Þetta er Laddi, sem þegar hefur verið sýnd yfir 50 sinnum við miklar vinsældir, tekur stutt hlé á meðan Laddi sjálfur heldur erlendis til að keppa í golfi.

Ekki allir vita að Laddi er ekki bara listamaður á sviðinu heldur einnig liðtækur kylfingur. Hann hefur verið í landsliði eldri kylfinga í golfi af og til undanfarin 11 ár, þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að æfa af alvöru fyrr en eftir fertugt.

„Það er aldrei of seint að grípa í kylfuna,“ er haft eftir Ladda í fréttatilkynningu frá Borgarleikhúsinu.

„Þegar ég var að verða sextugur sá ég að ég var orðinn eldri kylfingur, kominn í öldungadeildina og gæti farið að keppa til landsliðs í sérstökum mótum fyrir eldri kylfinga. Ég hringdi í golfkennara og pantaði tíma hjá honum og sagði:

„Ég ætla í landslið eldri kylfinga, kenndu mér.“ Ég var hjá honum í smá tíma og fór að æfa af miklum krafti. Ég komst svo í landslið eldri kylfinga 60+ árið 2014. Síðan þá hef ég komist sjö sinnum inn.”

Laddi er staddur á Spáni að keppa en kemur heim í tæka tíð til að stíga á svið í sýningunni sinni. En hvað er svo næst í golfinu?

„Ég fer út til Króatíu næsta sumar að keppa með landsliði 75+. Ég er bara nokkuð ánægður með þennan árangur.”

En hver er skemmtilegasti golfvöllurinn að mati Ladda?

Á Íslandi er það Grafarholtsvöllurinn og á Spáni er það Lo Romero,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert