Hafnarfjarðarslagur í handboltanum

Úr viðureign liðanna í vetur, þar sem Aron og Freyr …
Úr viðureign liðanna í vetur, þar sem Aron og Freyr tókust á. Morgunblaðið/Ómar

Það verður sannkallaður Hafnarfjarðarslagur í kvöld þegar Haukar taka á móti FH-ingum að Ásvöllum í N1 deild karla í handknattleik klukkan 19.30. Liðin hafa þrívegis mæst í vetur; FH vann tvo fyrstu leikina, en Haukar unnu síðast með 12 marka mun. Freyr Brynjarsson, varnartröll Hauka og Aron Pálmarsson, aðalsprautan í liði FH, búast báðir við erfiðum leik.

 „Það er alltaf mikil pressa á manni fyrir þessa leiki, mikil spenna í gangi og krafa um sigur. Við unnum örugglega síðast, en þá vantaði tvo helstu máttarstólpa FH liðsins, sem afsakar samt ekki 12 marka tap!“ segir Freyr Brynjarsson, sem býst við jöfnum leik.

„Ekki spurning. Þeir unnu okkur tvisvar fyrir jól í Kaplakrika, en liðið þeirra var að toppa þá, meðan við vorum kannski í lægð, þar sem meistaradeildin tekur sinn toll. En við erum búnir að finna taktinn núna, vörnin er að smella, en þetta verður mun jafnari leikur en síðast, þar sem Aron er komin aftur og svona, ég efast að við vinnum með 12 að minnsta kosti,“ segir Freyr.

Aron Pálmarsson er einnig orðinn spenntur fyrir kvöldinu.

„Mér líst bara helvíti vel á leikinn. Það er góð stemmning í hópnum hjá okkur og mikil löngun í að hefna fyrir síðasta leik, sem var alger niðurlæging og mun ekki koma fyrir aftur. Þetta verður baráttuleikur, bæjarstoltið er í húfi, en ekki síst stigin sem við þurfum bráðnauðsynlega á að halda viljum við komast í úrslitakeppnina. Við höfum sýnt að við getum unnið öll lið í deildinni, og þurfum að fá aftur þá stemmningu sem var í liðinu fyrir áramót. Og leikurinn í kvöld er sannarlega tilefni til þess,“ segir Aron sem spáir sigri FH, 26:25.

„Þetta eru skemmtilegustu leikirnir sem maður hefur spilað og vonandi náum við að fylla Ásvelli af FH-ingum og mynda brjálaða stemmningu, sem hefur mikið að segja,“ segir Aron sem hefur enga sérstaka rútínu fyrir leiki af slíkri stærðargráðu, hann noti ekki einu sinni neitt sérstakt sparigel í hárið.

„He he, nei ég nota bara sama gelið alltaf, það virkar vel.“

Haukar eru í efsta sæti með 26 stig, en FH er í 5. sæti með 18 stig líkt og HK, sem stendur þó betur sökum innbyrðis viðureigna.

Í kvöld mætast einnig Stjarnan og Akureyri, Valur fær Fram í heimsókn og Víkingur tekur á móti HK. Allir leikirnir hefjast klukkan 19.30 og verður þeim gerð skil á mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert