Guðmundur Guðmundsson: Aldrei vitað annað eins

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Brynjar Gauti

,,Ég hef bara aldrei vitað annað eins. Við erum að missa hvern leikmanninn á fætur öðrum í meiðsli en við verðum að þjappa okkur saman sem eftir eru," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, við mbl.is eftir æfingu landsliðsins í morgun en nú er ljóst að Arnór Atlason getur ekki spilað gegn Makedóníu í Skopje í kvöld.

,,Fjarvera Arnórs situr auðvitað strik í reikninginn hjá okkur, bæði hvað sóknarleikinn varðar og varnarleikinn en svona er þetta bara í íþróttunum. Meiðslin í hópnum eru hins vegar óvenju mikil og ekki síst hjá lykilmönnum. Fyrir utan þá sem eru ekki frá vegna meiðsla eru menn eins og Snorri Steinn og Ásgeir Örn ekki heilir svo ástandið er ekki gott,“ sagði Guðmundur.

Fyrir á sjúkralistanum voru Alexander Petersson, Logi Geirsson, Einar Hólmgeirsson og Sigfús Sigurðsson. Þá tekur Vignir Svavarsson út leikbann og enginn Ólafur Stefánsson er til staðar.

,,Nú ríður bara á að þeir sem eftir eru standi saman og spili með hjartanu. Við þessar aðstæður höfum við allt að vinna og verðum bara að gera eins vel og við getum. Leikurinn verður örugglega algjört stríð. Höllin verður troðfull af geggjuðum áhorfendum en það verður bara áskorun fyrir strákana,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur segir að Aron Pálmarsson úr FH og Haukamaðurinn Sigurbergur Sveinsson komi til að spila í skyttustöðunni vinstra megin í stað Arnórs. Hafnfirðingarnir ungu eru að stíga sín fyrstu skref með íslenska landsliðinu en þeir hafa sýnt og sannað að þeir eru framtíðarmenn og vonandi ná þeir að fylla skarð Arnórs með sóma.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert