Hanna Guðrún og Ólafur Indriði handknattleiksfólk ársins

Hanna Guðrún Stefánsdóttir, fyrirliði Hauka, fagnar einum af titlum sínum ...
Hanna Guðrún Stefánsdóttir, fyrirliði Hauka, fagnar einum af titlum sínum með félaginu á ferlinum. mbl.is/hag

Hanna Guðrún Stefánsdóttir úr Haukum og Ólafur Indriði Stefánsson, Rhein-Neckar Löwen, voru valin handknattleiksfólk ársins af Handknattleikssambandi Íslands. 

Hanna Guðrún Stefánsdóttir handknattleikskona er 30 ára gömul, fædd 11. febrúar 1979.  Hún hefur allan sinn feril leikið með Haukum  fyrir utan eitt tímabil sem hún lék með Holstebro í Danmörku.  Hanna hefur verið burðarás í liði Hauka og landsliðsins undanfarin ár og er frábær hornamaður sem skilar ávallt sínu og er öðru handknattleiksfólki glæsileg fyrirmynd. Hanna á að baki 86 landsleiki og hefur í þeim skorað 311 mörk. 

Ólafur Indriði Stefánsson handknattleiksmaður er 36 ára gamall, fæddur 3.júlí 1973. Ólafur hóf að leika handknattleik með Val ungur að aldri og lék með félaginu upp alla yngri flokkana. Hann gerðist atvinnumaður með þýska liðinu Wuppertal 1996, en gekk síðan til liðs við Magdeburg og lék með því liði til ársins 2003. Þá varð Ólafur leikmaður spænska liðsins Ciudad Real sem er sigursælasta handboltaliðið í Evrópu og  vann hann á árinu 2009 alla titla sem hægt var að vinna með liðinu,  Evrópumeistari meistaraliða, Spánarmeistari og Konungsbikarmeistari. Í haust skipti Ólafur um lið og leikur hann með Rhein-Neckar LöWen í Þýskalandi. Ólafur hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins undanfarinn ár. Hann hefur leikið 283 landsleiki og skorað í þeim 1.337 mörk og er markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi.

Ólafur Stefánsson, fyrirliði, íslenska landsliðsins í handknattleik.
Ólafur Stefánsson, fyrirliði, íslenska landsliðsins í handknattleik. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina