Íslenska landsliðið fer á EM

Hanna Guðrún Stefánsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik. Kristinn Ingvarsson

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tryggði sér rétt áðan keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Danmörku og í Noregi 6. - 19. desember þrátt fyrir þriggja marka tap fyrir Austurríki, 26:23, í lokaleik 3. riðlis undankeppni EM í Stockerau í Austurríki. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenska kvennalandsliðið tryggir sér keppnisrétt á stórmóti í handknattleik.

Ísland vann fyrri viðureignina með fjögurra marka mun, 29:25, og tryggði sér þar með annað sæti riðilsins á eftir Frakklandi. Sextán þjóðir taka þátt í mótinu eins og í karlaflokki.

Þetta er í fyrsta sinn sem Austurríki verður ekki á meðal þátttakenda í lokakeppni EM í kvennaflokki en síðan fyrsta mótið var haldið 1994 hefur austurríska landsliðið alltaf tekið þátt og einu sinni unnið til verðlaun.

Mörk Íslands: Hrafnhildur Skúladóttir 8/2, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 4, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Karen Knútsdóttir 2, Rakel Dögg Bragadóttir 2, Ásta Birna Gunnarsdóttir 1, Harpa Sif Eyjólfsdóttir 1, Stella Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Berglind Íris Hansdóttir 20 (þaraf 7 til mótherja)
Utan vallar: 14 mínútur, þar af fékk Anna Úrsúla rautt spjald við þriðju brottvísun á 50. mínútu.

60. Austurríska liðið sótti ákaft síðustu mínúturnar en vörn íslenska liðsins hélt vel, en mikil taugaspenna var í leikmönnum íslenska liðsins í síðustu sóknunum og því skiluðu þær ekki marki. Nokkur spenna var undir lokin en Austurríki vann boltann þegar 65 sekúndur voru eftir og þremur mörkum yfir. Þeim tókst hinsvegar að ekki að skora þau tvö mörk sem þeim vantaði upp á. Íslenska liðið fagnar innilega leikslok enda hefur það brotið blað í íslenskri íþróttasögu með því að tryggja sér keppnisrétt á stórmóti í fyrsta sinn. Frábært og rétt að óska leikmönnum, þjálfurum og öðrum aðstoðarmönnum liðsins innilega til hamingju.

55. Fimm mínútur eftir og austurríska liðið er mark yfir, 24:23.

50. Austurríska liðið hefur skorað þrjú mörk í röð er komið yfir, 21:20. Verið var að reka Önnu Úrsúlu af leikvelli í þriðja sinn. Hún kemur ekki meira við sögu. Íslenska liðið var komið með þriggja marka forskot um tíma, 19:16. Dómararnir hafa dregið taum heimaliðsins síðustu mínútur. Spennandi lokamínútur framundan.

40. Íslenska liðið hefur haft fulla stjórn á leiknum á upphafsmínútum fyrri hálfleik og staðan er vænleg, 17:15.

32. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir skorar fyrsta mark síðari hálfleik af línu og kemur Íslandi yfir, 13:12.

30. Leikurinn hefur verið járnum síðustu tíu mínútur. Ef undan eru skildar nokkrar mínútur snemma leiks sem voru slakar af hálfu íslenska liðsins þá hefur liðið svo sannarlega leikið frábærlega. Vörnin hefur verið góð, Berglind Íris farið á kostum í markinu og varið 13 skot. Sóknarleikurinn hefur veirð hreyfanlegur og hraður og mikið mun betri en gegn Frökkum í Laugardalshöll í vikunni. Austurríska liðið hefur síðari hálfleik einum leikmanni færri
Mörk Íslands: Hrafnhildur Skúladóttir 5/2, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 2, Karen Knútsdóttir 2, Ásta Birna Gunnarsdóttir 1, Harpa Sif Eyjólfsdóttir 1, Rakel Dögg Bragadóttir 1.

20. Síðustu tíu mínútur leiksins hafa verið fínar hjá íslenska liðinu. Það skoraði fjögur mörk í röð án þess að austurríska liðið næði að svara fyrir sig og breytti stöðunni úr 8:4 í 8:8 eftir 18 mínútur. Leikurinn er í járnum. Berglind Íris Hansdóttir hefur varið vel í markinu og eins hefur vararnleikurinn lengst af verið ágætur. Dómararnir, sem eru frá Slóvakíu, hafa verið slökustu menn vallarins til þessa. Margir dómar þeirra hafa vakið furðu.

10. Ísland byrjaði leikinn vel og komst í 3:1 og 4:2, eftir rúmlega fjögurra mínútna leik. Í framhaldinu komu nokkrar slakar sóknir og misheppnuð skot, m.a. vítakast og nú hefur austurríska liðið skorað fimm mörk í röð. Austurríski markvörðurinn virðist í stuði. Staðan er 7:4. Verið var að vísa Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur af leikvelli í tvær mínútur. Ásta Birna Gunnarsdóttir var mátulega kominn inn á ný eftir að hafa verið vísað af leikvelli. Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari, var að taka leikhlé til að koma skikki á leik íslenska liðsins.

2. Íslenska landsliðið byrja vel og skorar tvö fyrstu mörkin eftir hraðar sóknir.

Austurríki verður að vinna með fimm mörkum hið minnsta til þess að koma í veg fyrir að íslenska landsliðið fari ekki á EM sem fram fer í Danmörku og í Noregi í desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert