Aron ekki með gegn Þjóðverjum

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. mbl.is/Þórir Ó. Tryggvason

Aron Pálmarsson leikur ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það mætir því þýska í vináttulandsleik í Mannheim í Þýskalandi á miðvikudaginn í næstu viku. Sama kvöld mætir Kiel, sem Aron leikur með, Wisla Plock, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Leikið verður í Póllandi þetta tiltekna kvöld en síðari viðureignin fer fram 18. mars.

Nafn Arons bætist þar með á nokkuð langan lista leikmanna sem Guðmundur Þ. Guðmundsson getur ekki teflt fram í leiknum í Mannheim. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að danska meistaraliðið AG Köbenhavn á leik við Nordsjælland 14. mars í dönsku úrvalsdeildinni. Af þeim sökum er ljóst að ekki færri en fimm landsliðsmenn, sem leika með liðunum tveimur, geta ekki gefið kost á sér í leikinn, þ.e. Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson, auk Ólafs A. Guðmundssonar sem er lánsmaður hjá Nordsjælland þótt hann sé samningsbundinn AG.

Af þessu virðist ljóst að nokkur ný andlit munu fá tækifæri til að láta ljós sitt skína með íslenska landsliðinu í leiknum í Mannheim í vikunni. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins standa vonir til þess að tilkynnt verði undir lok vikunnar hverjir skipi landsliðið í vináttulandsleiknum í Mannheim. iben@mbl.is