Úrslitahelgin í handboltanum í 3D

Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason verða í þrívídd í lok ...
Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason verða í þrívídd í lok maí. Ljósmynd/http://www.eurohandball.com

Úrslitahelgin í Meistaradeildinni í handbolta sem fram fer í Lanxess-höllinni í Köln í lok maí verður fyrsti handboltaviðburðinn í sögunni sem sýndur verður í þrívídd.

Stuðningsmenn liðanna sem gera sér ferð á leikina auk fréttamanna geta séð leikina á þar til gerðum sjónvörpum í höllinni en 3D-merkið verður ekki í boði fyrir almennar sjónvarpsútsendingar að þessu sinni.

Þetta er tilraunaverkefni hjá evrópska handknattleikssambandinu sem vonast til að geta nýtt þrívíddartæknina á öllum stórmótum sínum í framtíðinni.

„Þetta verður í fyrsta skipti sem þetta er gert í handbolta. Við erum að horfa til framtíðar og vonumst til þess að handbolti í 3D geti boðið sjónvarpsáhorfendum upp á nýja upplifun af íþróttinni,“ segir Peter Varga, markaðsstjóri EHF.

Þótt leikirnir verði ekki í boði í þrívídd nema í Lanxess-höllinni að þessu sinni verða allir leikirnir sendir út í háskerpu eins og undanfarin ár.

Átta Íslendingar taka þátt í úrslitahelginni en þrjú af liðunum fjórum sem taka þátt í henni eru með Íslendinga innanborðs.

Í undanúrslitum mætir danska stórveldið AGK spænska risanum Atletico Madríd og í hinum leiknum mætast Alfreð Gíslason og Dagur Sigurðsson í rimmu Kiel og Füchse Berlin.

mbl.is