Flugu til Mallorca til að fagna

Alfreð Gíslason þjálfari Kiel lyftir Evrópubikarnum.
Alfreð Gíslason þjálfari Kiel lyftir Evrópubikarnum. AFP

„Við ákváðum að fagna þessu almennilega fyrst við erum orðnir þrefaldir meistarar,“ sagði Aron Pálmarsson, leikstjórnandi þýska handboltastórveldsins Kiel, við Morgunblaðið í gærkvöldi en Kiel-liðið var þá mætt til Mallorca til að fagna sigri í Meistaradeildinni.

Kiel setti punktinn yfir I-ið á stórbrotnu tímabili liðsins á sunnudaginn þegar það lagði spænska risann Atletico Madrid, 26:21, í úrslitaleiknum í Köln. Aron átt mjög góðan leik og skoraði þrjú mörk og fiskaði eitt vítakast.

Árangur Kiel á tímabilinu er ótrúlegur en liðið vann meistarakeppnina í Þýskalandi í byrjun tímabils, það er orðið Þýskalandsmeistari þegar enn eru tveir leikir eftir og liðið hefur ekki tapað stigi og þá er Kiel einnig bikarmeistari.

„Vörn og markvarsla var aðallega í lagi í úrslitaleiknum en við vorum ekkert að skora svo mikið. Leikurinn var eflaust ekkert mikið fyrir augað. En Omayer varði allt í markinu og það gekk flest sem við lögðum upp með,“ segir Aron sem neyddist til að nota klisjukennd orð yfir það sem skipti mestu máli í leikjunum tveimur.

„Þegar maður fer inn í svona úrslitahelgi eru allir leikir erfiðir. Þó við værum taldir líklegastir skiptir það engu máli. Ég vil varla segja það en á svona úrslitahelgi skiptir dagsformið máli, sérstaklega í seinni leiknum. Þetta eru allt 50-50 leikir því þau lið sem vinna sér inn rétt til að keppa á meðal þeirra fjögurra bestu eru auðvitað mjög góð,“ segir Aron.

Nánar er rætt við Aron og fjallað um úrslitaleikina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert