„Lífsnauðsynlegt að fá þessa leiki“

Arnór Atlason ásamt liðsfélögum sínum á æfingunni í dag.
Arnór Atlason ásamt liðsfélögum sínum á æfingunni í dag. Styrmir Kári

„Það hefur oft vantað einhverja en núna erum við allir hérna. Það er gaman að sjá það og það eru augljós markmið, vonandi verða allir með,“ sagði Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik, við mbl.is í dag.

Íslenska liðið æfir sig nú af kappi fyrir Evrópumótið sem fer fram í Póllandi síðar í janúar en Ísland á fjóra æfingaleiki áður en flautað verður til leiks.

Ísland mætir Portúgal í tveimur leikjum á miðvikudag og fimmtudag áður en liðið heldur út og mætir Þýskalandi.

„Þetta er búið að vera svipað lið síðustu árin en oft vantað einhverja á síðustu mótum. Það væri gríðarlega sterkt ef allir gætu farið og verið klárir. Það styrkir okkur og ætti að gefa okkur möguleika,“ sagði Arnór við mbl.is í dag.

„Þetta eru fyrst og fremst væntingarnar sem við gerum til okkar. Ég held að þetta sé níunda Evrópumótið í röð sem við komumst á. Við gerum kröfu á okkur að gera þetta og hin liðin hafa verið frábær líka en það er ekkert sjálfsagt að komast á svona mörg mót í röð. Við viljum ekki bara vera með, við viljum gera eitthvað.“

Portúgal er andstæðingur Íslands hér á Íslandi en hann segir að mikil uppsveifla sé á liðinu. Hann býst þá við hörkuleikjum gegn Þýskalandi.

„Þetta er gott lið sem er í uppsveiflu. Þeir eru flottir með fína handboltamenn og við vitum allir hvað Þýskaland stendur fyrir, það er sögufræg handboltaþjóð. Þeir hafa vissulega orðið fyrir skakkaföllum en þeir vilja sýna sig fyrir sínu fólki og það verða pottþétt hörkuleikir."

„Ég held að fólk fær ekkert að sjá lið sem er tilbúin í fyrsta leik í EM í þessum æfingaleikjum en lífsnauðsynlegt fyrir okkur að fá þessa leiki. Við spilum lítið á Íslandi en gaman að fá að spila þetta í Kaplakrika.“

„Það hefur oftast tekið mestan tíma að stilla saman strengi í vörninni en það leit ágætlega út í Noregi. Bjarki, Vignir, Alexander og Snorri komnir aftur þannig við erum enn sterkari og menn tilbúnir að taka ábyrgð og menn þurfa að gera það til að ná árangri,“ sagði hann að lokum.

mbl.is