Guðmundur og Danir ekki í vandræðum

Guðmundur Þ. Guðmundsson er landsliðsþjálfari Dana.
Guðmundur Þ. Guðmundsson er landsliðsþjálfari Dana. mbl.is/Golli

Danska landsliðið í handknattleik, undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, áttu ekki í vandræðum með lið Katar þegar þjóðirnar mættust í Gulldeildinni, alþjóðlegu móti í Frakklandi, nú í kvöld.

Danir voru með tveggja marka forskot í hálfleik, 15:13, en Guðmundur spilaði vel á liði sínu og fengu margir að spreyta sig. Leikmenn voru því frískir allt til enda, bættu jafnt og þétt við forskot sitt og unnu að lokum fimm marka sigur, 31:26.

Fyrr í dag lögðu gestgjafar Frakka svo Norðmenn í spennuleik, 27:26, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12. Norðmenn eru einmitt í riðli Íslands á Evrópumótinu í Póllandi sem hefst eftir rúma viku, en þetta æfingamót er liður í undirbúningi þeirra, Frakka og Dana fyrir mótið.

mbl.is