Nöddesbo til Kolding eða Kiel?

Jesper Nöddesbo t.h. ásamt Guðmundi Þórði Guðmundssyni landsliðsþjálfara Dana í ...
Jesper Nöddesbo t.h. ásamt Guðmundi Þórði Guðmundssyni landsliðsþjálfara Dana í handknattleik karla. EPA

Danski landsliðsmaðurinn Jesper Nöddesbo er undir smásjánni hjá danska meistaraliðinu KIF Kolding Köbenhavn en allt bendir til þess að hann yfirgefi Barcelona í síðasta lagi um mitt þetta ár þrátt fyrir að vera með samning við Evrópumeistarana fram til 2018. Einnig er talið að Alfreð Gíslason hafi Nöddesbo í sigtinu en hann leitar nú að línumanni. 

Báðir línumen Kiel, René Toft Hansen og Patrick Wiencek, eru úr leik vegna alvarlegra meiðsla og ljóst er að Hansen mætir ekki á völlinn fyrr en á næsta keppnistímabili eftir að hafa slitið krossband skömmu fyrir áramót. Danskir fjölmiðlar greina frá því að Kiel leiti að línumanni til þess að fylla í skarðið meðan Hansen og Wiencek verða fjarri góðu gamni. 

Nöddesbo hefur ekki fengið eins mörg tækifæri með Evrópumeisturum Barcelona á þessari leiktíð og oft áður. Hann hefur sagt í samtölum við danska fjölmiðla síðustu daga að margt bendi til að hann yfirgefi Barcelona við lok þessa keppnistímabils. 

Forráðamenn KIF Kolding Köbenhavn eru sagðir velta því fyrir sér að gera Nöddesbo tilboð. Eins munu félög í Frakklandi renna hýru auga til danska línumannsins sterka sem verður í eldlínunni með danska landsliðinu á Evrópumeistaramótinu í Póllandi í seinni hluta þessa mánaðar. 

mbl.is