Getum þá alveg eins sleppt EM

Zeljko Babic, þjálfari Króatíu.
Zeljko Babic, þjálfari Króatíu. Ljósmynd/hrs.hr

Zeljko Babic, þjálfari króatíska landsliðsins sem mætir Íslandi á EM í handbolta í Póllandi, var skiljanlega ósáttur eftir riastórt tap gegn Slóveníu, 32:17, í gær í síðasta leik Króata fyrir EM.

„Þessi munur í lokin gefur ekki rétta mynd af leiknum, en það er ekki gaman að tapa með þessum hætti, sérstaklega fyrst þetta er síðasti vináttulandsleikurinn fyrir Evrópumótið,“ sagði Babic við króatíska fjölmiðla.

„Ef við lærum af þessu og skiljum hvað hvert einasta skot er mikilvægt, og hversu mikilvægt er að leggja sig allan fram, þá verður þetta í lagi. Ef við lærum ekki af þessu, þá er best að við sleppum því að fara til Póllands,“ sagði Babic.

„Við verðum að leita að ástæðum þess að við slitnuðum svona í sundur í leiknum, þess að við áttum varla skot fyrir utan, og þess að við skyldum gera svona mörg tæknimistök. Við munum funda með leikmönnum, skoða þetta á myndbandi og rýna í málið,“ sagði Babic.

Ísland og Króatía eigast við í lokaumferð B-riðils á EM í Póllandi, þriðjudaginn 19. janúar. Fyrsti leikur Króata er gegn Hvíta-Rússlandi á föstudag en þá mætir Ísland liði Noregs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert