Alfreð og félagar töpuðu stigi

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. JONAS GUETTLER

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans hjá Kiel gerðu 30:30 jafntefli við Rúnar Kárason og félaga hans hjá Hannover Burgdorf í leik liðanna í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í dag. 

Kiel var tveimur mörkum undir þegar ein mínúta var eftir af leiknum, en Christian Sprenger jafnaði metin þegar 21 sekúnda var eftir af leiknum.

Rúnar Kárason skoraði 4 mörk fyrir Hannover Burgdorf sem batt endi á 13 leikja sigurgöngu Kiel með jafnteflinu, en Kiel missti þarna dýrmætt stig harðri baráttu við Flensburg og Löwen um þýska meistaratitilinn.

Christian Dissinger var markahæstur í liði Kiel með ellefu mörk, en Joakim Andre Hykkerud, Lars Lehnhoff og Timo Kastening skoruðu fimm mörk hver fyrir Hannover Burgdorf.

Kiel er í þriðja sæti deildarinnar eftir þetta jafntefli með 39 stig eftir 23 leiki. Rhein-Neckar Löwen er með 42 stig í toppsætinu og Flensburg hefur 40 stig í öðru sæti, en Kiel á leik til góða á toppliðin tvö.

mbl.is