Ekki séns að hún myndi klikka

„Þetta er frábær árangur hjá okkur. Það hefði enginn veðjað á þetta fyrir tímabilið og ég er fáránlega stolt, en hungruð í meira,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested, leikmaður Stjörnunnar, eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitum Olís-deildarinnar með því að slá út Hauka í oddaleik.

Stjarnan vann Hauka í Hafnarfirði í kvöld með eins marks mun, 23:22, eftir að hafa skorað þrjú síðustu mörk leiksins, og einvígið þar með 3:2. Stjarnan mætir Gróttu í úrslitaeinvíginu.

„Það var rosalega erfitt að skora þarna í lokin og svo skoruðu þær tvö mörk, þannig að ég viðurkenni það að ég missti trúna í svona hálfa sekúndu. En svo þjöppuðum við okkur saman og náðum að klára þetta. Hanna setti eitt úr horninu og vítin líka, og er bara þvílíkt örugg. Það var ekki séns að hún væri að fara að klikka!“ sagði Sólveig Lára og brosti.

Rætt er við Sólveigu í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert