Hefðum getað klárað dæmið rosalega oft

„Þetta er alveg ömurlegt. Við hefðum getað klárað dæmið rosalega oft og þetta er ennþá meira svekkjandi út af því,“ sagði Ragnheiður Sveinsdóttir, leikmaður Hauka, eftir að deildarmeistararnir féllu úr leik í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handbolta.

Haukar töpuðu í oddaleik gegn Stjörnunni í kvöld eftir mikla spennu, 23:22, en Stjarnan skoraði þrjú síðustu mörk leiksins. Haukar fengu hálfa mínútu í lokasókn sína en tókst ekki að nýta hana:

„Það vantaði kannski bara meiri áræðni í að sækja betur á markið, en svona er þetta og þetta veltur ekki bara á því augnabliki. Við áttum að klára dæmið fyrr. Sóknarleikurinn var ekki nógu góður hjá okkur, en það var svo sem óheppni líka, en svona er þetta víst,“ sagði Ragnheiður. Nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert