„Þú hélst að karlinn gæti ekki jafnað“

Þrándur Gíslason knúði fram framlengingu á Ásvöllum í dag.
Þrándur Gíslason knúði fram framlengingu á Ásvöllum í dag. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Línumaðurinn Þrándur Gíslason Roth var hátt uppi eftir sigur Aftureldingar á Haukum í dag enda knúði hann fram framlengingu fyrir Mosfellinga. Þrándur kaus að tala um sig í 3. persónu við mbl.is að leiknum loknum. 

Þrándur jafnaði leikinn af línunni 30:30 þegar 2 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma. 

„Þú hélst að karlinn gæti ekki jafnað! Þú varst að fara að skrifa um það að karlinn gæti ekki jafnað en svo jafnaði ég bara,“ sagði Þrándur léttur en Mosfellingar voru manni fleiri síðustu 7 sekúndurnar og Þrándur fékk opið færi á línunni. „Við vorum náttúrlega manni fleiri og tókum markvörðinn út af. Þeir fóru út í Mikk þegar hann ógnaði sem er ekki skrítið því hann er svakalegur skotmaður og erfiður við að eiga. Þeir héldu því líka að karlinn gæti ekki jafnað en karlinn jafnaði. 

Sigurinn var líklega eins sætur og hann gat orðið fyrir Aftureldingu. Undir lok venjulegs leiktíma var liðið tveimur mörkum undir þegar mínúta var eftir. Þá jafnaði Þrándur. Undir lok fyrri framlengingar jafnaði Pétur Júníusson. Og undir lok annarrar framlengingar skoraði Gunnar Malmquist síðasta mark leiksins. „Þetta voru bara stáltaugar. Þú þarft að vera með stáltaugar til að vera á þessum stað í keppninni og bæði lið hafa það. Svo dettur sigurinn bara öðru hvoru megin og það veltur á einhverjum sentimetrum hingað og þangað. Sigurinn datt okkar megin en svakalegur karakter og gaman að sjá svona sigurkarakter í þessu liði. Sigurkarakterinn hefur stigmagnast í okkar liðið síðustu tvö til þrjú árin og það er ekki fyrr sem menn komast á þennan stað í Íslandsmótinu,“ sagði Þrándur í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert