Kristján tekur við sænska landsliðinu

Kristján Andrésson verður kynntur til leiks sem þjálfari sænska karlalandsliðsins ...
Kristján Andrésson verður kynntur til leiks sem þjálfari sænska karlalandsliðsins í handbolta á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aftonbladet slær því föstu í frétt sinni í dag að Kristján Andrésson verði kynntur til leiks sem þjálfari sænska karlalandsliðsins í handbolta klukkan 11.00 að íslenskum tíma á morgun.

Kristján tekur við sænska liðinu af Ola Lindgren og Staffan Olsson sem létu af störfum sem þjálfarar liðsins eftir Ólympíuleikana í Ríó í Brasilíu í sumar.  

Kristján hætti störfum sem þjálfari karlaliðs Guif Eskilstuna síðastliðið vor eftir að hafa þjálfað liðið síðan árið 2007, en hann lék með liðinu þar til hann lagði skóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla.

Kristján hefur verið orðaður við starf landsliðsþjálfara sænska karlalandsliðsins í handbolta undanfarnar vikur og nú virðist það vera í höfn að hann taki við liðinu. 

Kristján verður þar af leiðandi fimmti íslenski þjálfarinn sem þjálfar erlent landslið, en Dagur Sigurðsson er þjálfari þýska karlalandsliðsins, Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar danska karlalandsliðið, Patrekur Jóhannesson stýrir austurríska karlalandslinu og Þórir Hergeirsson heldur um stjórnartaumana hjá norska kvennalandsliðinu.  

mbl.is