Ragnar með sjö mörk í öruggum sigri

Ragnar Jóhannsson og Aðalsteinn Eyjólfsson.
Ragnar Jóhannsson og Aðalsteinn Eyjólfsson. Thomas Wißner, Leihgestern

Ragnar Jóhannsson, leikmaður Hüttenberg í þýsku B-deildinni í handknattleik, átti frábæran leik er lið hans sigraði Leutershausen 31:24 í tólftu umferð deildarinnar í kvöld. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar Hüttenberg.

Hüttenberg hefur farið tímabilið vel af stað og situr í þriðja sæti deildarinnar eftir fyrstu tólf umferðirnar.

Ragnar, sem kom frá FH á síðasta ári, var einn af öflugustu leikmönnum Olís-deildarinnar áður en hann hélt út en hann er í afar mikilvægu hlutverki hjá Hüttenberg. Liðið vann Leutershausen eins og áður segir í kvöld og gerði Ragnar sjö mörk.

Liðið hefur unnið níu leiki og tapað þremur en liðið er aðeins þremur stigum frá toppsætinu.

Enginn Íslendingur komst á blað er Aue sigraði Neuhausen 32:29. Sigtryggur Rúnarsson, Bjarki Már Gunnarsson og Árni Sigtryggsson náðu ekki að setja boltann í netið í leiknum en fögnuðu þó sigri. Liðið er í 15. sæti deildarinnar með 7 stig.

Ólafur Bjarki Ragnarsson var þá með þrjú mörk er Eisenach sigraði Hamm 36:30 í dag en Fannar Friðgeirsson var ekki með Hamm. Eisenach er í 5. sæti en Hamm í 16. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert