HM-draumurinn úti eftir skelfilegt tap

Guðrún Ósk Maríasdóttir, markvörður íslenska landsliðsins.
Guðrún Ósk Maríasdóttir, markvörður íslenska landsliðsins. mbl.is/Eggert

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta á nánast enga von um að komast áfram úr forkeppni HM í Færeyjum eftir skelfilega frammistöðu gegn Makedóníu í dag. Makedónía þurfti að minnsta kosti sjö marka sigur og vann 27:20 með lokamarki á síðustu sekúndu leiksins.

Austurríki og Færeyjar mætast í lokaleik riðilsins kl. 18. Tvö efstu lið riðilsins komast áfram í umspil um sæti á HM. Ísland vann Austurríki og Færeyjar og gæti enn komist áfram ef Austurríki mistækist að vinna Færeyjar, en á því eru afar litlar líkur.

Ef Austurríki vinnur Færeyjar enda Austurríki, Makedónía og Ísland öll með 4 stig í riðlinum, en Ísland með verstu markatöluna úr innbyrðis leikjum liðanna.

Ísland byrjaði leikinn við Makedóníu í dag afskaplega illa. Varnarleikurinn var í molum og markvarslan nánast engin. Sóknarleikurinn gekk sömuleiðis illa og komst Makedónía í 9:3 áður en Axel Stefánsson landsliðsþjálfari tók leikhlé.

Leikur Íslands batnaði í kjölfarið, Guðrún Ósk Maríasdóttir varði nokkur skot og Rut Jónsdóttir kom sterk inn í sóknarleikinn eftir meiðsli. Ísland minnkaði muninn í 12:9 en staðan í hálfleik var 15:11.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn eins og þann fyrri, og Makedónía komst í 18:11. Munurinn var svo í kringum 6-7 mörk út leikinn, og spennan því mikil um hvort liðið kæmist áfram í HM-umspilið. Ísland skoraði tvö mörk í röð og minnkaði muninn í 26:20 þegar mínúta var til leiksloka, en Makedónía fékk að spila þá mínútu til enda og skoraði markið mikilvæga í þann mund sem flautað var til leiksloka.

Fylgst var með gangi mála í leiknum í dag hér á mbl.is.

Ísland 20:27 Makedónía opna loka
60. mín. Leik lokið Skelfilegt sjö marka tap, sem er akkúrat nóg fyrir Makedóníu til að komast í HM-umspilið og skilja Ísland eftir, svo lengi sem Austurríki vinnur Færeyjar, sem er nánast bókað mál.
mbl.is