Selfyssingar fara ánægðir í fríið

Ari Magnús Þorgeirsson og félagar í Stjörnunni unnu óvæntan sigur ...
Ari Magnús Þorgeirsson og félagar í Stjörnunni unnu óvæntan sigur á Val í síðasta leik. mbl.is/Golli

Selfyssingar fara glaðir inn í jólahátíðina eftir að hafa farið með sigur af hólmi, 32:26, þegar liðið mætti Stjörnunni í 16. umferð Olísdeildar karla í handbolta í Mýrinni í kvöld. 

Stjarnan spilaði raunar ekki líkt og lið sem vermir botnsæti deildarinnar lengstum í leiknum í kvöld. Það var mikil stemming í herbúðum Stjörnunnar í upphafi leiksins, leikmenn liðsins hvöttu hvorn annan til dáða í varnarleiknum og sóknarleikurinn var heilt yfir fínn.

Botninn datt hins vegar úr leik Stjörnunnar þegar mest á reyndi og Selfoss tók stigin tvö með sér austur fyrir fjall.  

Stjarnan var einu til þremur mörkum yfir lungann úr fyrri hálfleiknum, en Selfyssingar eru ólseigir og gáfust aldrei upp. Stefán Darri Þórsson, leikmaður Stjörnunnar, fékk rautt spjald og síðan blátt spjald í kjölfarið í fyrri hálfleik fyrir að slá í andlit Elvars Árna Jónssyni, leikmanni Selfoss.

Munurinn á liðunum var tvö mörk, Stjörnunni í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Selfoss byrjaði hins vegar seinni hálfleik af miklu krafti og náði forystunni í upphafi seinni hálfleiks. Jafnt var á öllum tölum framan af í seinni hálfleik, en úrslitin réðust á um það bil fimm mínútna kafla þegar um það bil tíu mínútur voru eftir af leiknum.  

Helgi Hlynsson, markvörður Selfoss, hrökk aldeilis í gang um miðbik seinni hálfleiks og varði skot á mikilvægum augnablikum. Þá varð sóknarleikur Stjörnunnar ansi stirður undir lok leiksins og leikmenn liðsins fóru illa að ráði sínu á ögurstundu í leiknum.

Sveinbjörn Pétursson varði vel fyrir aftan sterka vörn Stjörnunnar og Ólafur Gústafsson virðist óðum ver að nálgast sitt fyrra form. Þá var Garðar Benedikt Sigurjónsson öflugur inni á línunni hjá Stjörnunni, en hann skoraði úr öllum sínum færum í opnum leik auk þess að nýta vítaköst sín fullkomlega.

Elvar Örn Jónsson sem er einn af þeim 28 sem koma til greina í leikmannahóp íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu sem fram fer í janúar átti góðan leik fyrir Selfoss, en hann og Einar Sverrisson voru atkvæðamestur í liði gestanna með sjö mörk.

Framundan er um það eins og hálfs mánaðar hlé á deildinni vegna heimsmeistaramótsins sem fram fer í janúar á næsta ári. Næstu leikir liðanna eru í byrjun febrúar á næsta ári. Selfoss er í fimmta sæti deildarinnar með 16 stig á meðan Stjarnan situr á botni deildarinnar með 11 stig. 

Stjarnan 26:32 Selfoss opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með 32:26 sigri Selfoss.
mbl.is