Selfoss fyrst liða í undanúrslitin

Sunna María Einarsdóttir kemst framhjá Kristrúnu Steinþórsdóttur í vörn Selfoss ...
Sunna María Einarsdóttir kemst framhjá Kristrúnu Steinþórsdóttur í vörn Selfoss í kvöld en það dugði ekki til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selfoss varð í kvöld fyrst liða til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik, Coca Cola-bikarsins, eftir sigur á Gróttu í miklum spennuleik á Seltjarnarnesi í kvöld 21:20.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum var hnífjöfn, 12:12. Selfoss byrjaði betur eftir hlé, en náði aldrei að hrista heimakonur af sér. Á lokamínútunni fékk Grótta vítakast en það fór forgörðum og Selfoss fagnaði því sigri, 21:20.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Selfossi, og Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Gróttu, voru markahæstar í kvöld en þær skoruðu báðar 11 mörk fyrir sín lið.

Á morgun eru síðustu þrír leikirnir í 8-liða úrslitunum þegar Fylkir mætir Fram, Afturelding fær Hauka í heimsókn og Stjarnan tekur á móti ÍBV, en síðastnefnda leiknum var frestað um sólarhring vegna veðurs.

Mörk Gróttu: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 11, Lovísa Thompson 2, Laufey Ásta Guðmundsdóttir 2, Sunna María Einarsdóttir 2, Emma Havin Sardardóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1.

Mörk Selfoss: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 11, Dijana Radojevic 3, Kristrún Steinþórsdóttir 2, Arna Kristín Einarsdóttir 2, Perla Ruth Albertsdóttir 1, Adina Ghidoarca 1, Carmen Palamariu 1.

mbl.is