Trúðum að við gætum ekki tapað

Josip Juric Grgic.
Josip Juric Grgic. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfðum trú á okkur og því að við gætum unnið. Ég er ekki í vafa um að það reið baggamuninn, trúin á að við gætum ekki tapað,“ sagði  Josip Juric Grgic, markahæsti leikmaður Vals með tíu mörk, þegar liðið vann Aftureldingu í úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla í Laugardalshöll í kvöld, 26:22.

„Þegar andinn er jafngóður og raun ber vitni getum við unnið leiki þótt við leikum kannski ekki eins vel og við getum best. Þannig er karakterinn hjá góðum liðum,“ sagði Grigic sem gekk til liðs við Val í haust og vinnur nú sinn fyrsta titil með liðinu.

„Varnarleikurinn var góður. Hann fleytti okkur langt enda þarf ekki að skora eins mikið af mörkum þegar vörnin er góð og markvarslan er í lagi. Sóknarleikurinn hefur ekki verið góður hjá okkur upp á síðkastið en varnarleikurinn hefur verið frábær og fleytt okkur langt,“ sagði Grgic sem vildi lítið gera úr eigin þætti í sigrinum.

„Í dag kom það í minn hlut að skora mörkin. Á morgun getur það verið einhver annar,“ sagði Josip Juric Grgic, markahæsti leikmaður Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert