„Það afskrifar enginn Hauka“

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, ásamt línumanninum Heimi Óla Heimissyni.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, ásamt línumanninum Heimi Óla Heimissyni. mbl.is/Golli

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, gat leyft sér örlítið bros eftir 34:20 sigur Íslandsmeistaranna gegn Akureyri í Olís-deild karla í handknattleik. Haukar hafa því fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar en hafa leikið einum leik meira en næstu lið.

„Ég er mjög ánægður með að við náum að vera á fullu í 60 mínútur í dag. Undanfarnir leikir hafa verið kaflaskiptir hjá okkur og við höfum dottið niður í seinni hálfleik. Við höfum því verið að stefna svolítið lengi að því að ná heilsteyptum leik og það var bara frábært að sjá það gerast gegn Akureyri,“ sagði Gunnar eftir leik.

Þjálfarinn gat notað alla leikmenn sína í dag og það voru 12 Haukamenn sem komust á blað í leiknum. Þórður Rafn Guðmundsson fékk tækifæri í vinstra horninu á kostnað Hákonar Daða Styrmissonar og lék vel.

„Tóti var flottur og nýtti tækifærið vel. Það er auðvitað bara frábært að hafa góða breidd og ég er sérstaklega ánægður með varnarleikinn í dag. Við höldum þeim í 20 mörkum sem er mjög jákvætt. Munurinn á þessum leik og síðustu leikjum er sá að við höldum okkar varnarleik allan leikinn en dettum ekki niður á hælana.“

Haukar eiga eftir að mæta ÍBV, FH og Aftureldingu í deildinni og ljóst að erfitt verkefni bíður liðsins. Gunnar tekur þessum leikjum fagnandi.

„Nú eru bara úrslitaleikir fram undan og við mætum bara fullir sjálfstrausts í komandi verkefni. Það er mjög gott að fá þrjá hörkuleiki svona rétt fyrir úrslitakeppnina, það er bara besti undirbúningur sem völ er á.“

Einhver umræða hefur verið um að Haukar væru í örlítilli krísu og teldust jafnvel ólíklegir til að verja Íslandsmeistaratitil sinn. Gunnar gefur lítið fyrir slíkt tal.

„Það er enginn að fara að afskrifa Hauka. Við vitum þó að þetta er langt og strangt mót og mikilvægustu vikurnar eru fram undan. Við munum mæta tilbúnir þangað,“ sagði Gunnar Magnússon.

mbl.is