„Þetta er bara sorglegt“

Sverre Andreas Jakobsen.
Sverre Andreas Jakobsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var daufur eftir stórtap liðsins gegn Haukum í dag. Haukar unnu 34:20 og lögðu grunninn að sigrinum með því að skora síðustu sjö mörk fyrri hálfleiks. Sverre segir þennan kafla illskiljanlegan hjá sínum mönnum.

„Ég þarf eiginlega að horfa á þetta aftur. Þetta kom bara eins og ein stór sprengja. Við erum gríðarlega óskynsamir og erum svo ekki að nýta dauðafæri. Haukarnir refsa svo á núll-einni og staðan er orðinn nánast vonlaus í hálfleik.“

Akureyringar voru í engum takti og t.a.m. misstu þeir boltann tveimur fleiri og fengu hraðupphlaup í bakið.

„Þetta skrifast á að menn eru bara ekki alveg tilbúnir í verkefnið. Við höfum verið nokkuð stöðugir eftir áramót en þetta var alveg úr karakter. Við lendum í slæmum kafla í upphafi leiks gegn Selfossi, sem gerði allt mjög erfitt og svo fáum við þennan hrikalega kafla í lok fyrri hálfleiks núna gegn Haukum. Þetta er bara sorglegt.“

Akureyri á þrjá lykilleiki eftir í deildinni og þjálfarinn veit hvað liðið þarf að gera.

„Þetta er bara orðið upp á líf eða dauða hjá okkur eins og nokkrum öðrum liðum. Við eigum stóran leik gegn Fram í næstu umferð og svo eigum við Stjörnuna og ÍBV líka eftir. Það er bara ljóst að við þurfum a.m.k. fjögur stig úr þessum leikjum ef við ætlum að halda sæti okkar í deild þeirra bestu.“

„Það er hins vegar alveg ljóst að það erum bara við sem getum klárað þetta fyrir okkur. Það er enginn annar að fara að gera það. Ég vona bara að mínir leikmenn fari að átta sig á því að vinnuframlagið inni á vellinum skilar þessu. Það eru allt of margir lykilmenn langt frá sínu besta,“ sagði þreyttur Sverre að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert