Bíð enn þá eftir 60 mínútum af Ólafi

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar. mbl.isÁrni Sæberg

Einar Andri Einarsson og Einar Jónsson, þjálfarar Aftureldingar og Stjörnunnar, voru misánægðir eftir leik liðanna í Olís-deild karla í handbolta í kvöld eins og gefur að skilja. Afturelding vann leikinn, 30:28, og var þetta fyrsti heimasigur liðsins á árinu 2017.

„Við töpuðum í síðustu viku gegn Gróttu í leik sem okkur fannst við eiga að vinna, og vel gegn Selfossi í umferðinni þar á undan. Það var svo frábært að ná aftur góðum leik í dag og sigri. Við erum á mikilli uppleið og lítum betur út með hverjum deginum eftir svolitla lægð,“ sagði Einar Andri. Varnarleikur Aftureldingar gekk þó ekki vel til að byrja með í kvöld:

„Við vorum búnir að fá á okkur 13 mörk eftir 21 mínútu en náðum að gera smábreytingar á vörninni sem virkuðu mjög vel. Birkir [Benediktsson] kom frábær inn í vörnina og Gunni [Malmquist] líka. Við náðum að setja þá í meiri vandræði og vörnin var áfram góð í seinni hálfleik,“ sagði Einar Andri. Afturelding virðist vera að komast á skrið nú þegar styttist í úrslitakeppnina, en liðið var lengi vel efst í Olís-deildinni:

Var hálfævintýralegt í byrjun móts

„Þetta var hálfævintýralegt, sérstaklega í byrjun móts. Síðan misstum við aðeins dampinn og vandamálin héldu áfram í janúar. Það var mikið um meiðsli og nýja leikmenn, og ég hafði áhyggjur af að svona gæti farið. Þetta varð þó fulllangur og erfiður kafli, en við erum búnir að setja hann á bak við okkur og erum hrikalega jákvæðir fyrir framhaldinu,“ sagði Einar Andri.

Ólafur Gústafsson meiddist snemma leiks en hafði þá þegar skorað ...
Ólafur Gústafsson meiddist snemma leiks en hafði þá þegar skorað fimm glæsileg mörk. mbl.is/Kristinn

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, sá lykilmanninn Ólaf Gústafsson fara meiddan af velli eftir aðeins 17 mínútur í kvöld en Ólafur hafði þá þegar skorað 5 mörk.

Fannst þetta vera rautt spjald

„Það er helvíti stórt skarð að missa Ólaf úr leik. Ég er enn þá að bíða eftir þeim leik þar sem hann er með okkur í 60 mínútur. Þetta er orðið ansi þreytt, annaðhvort rauð spjöld eða eins og í þessu tilviki að honum er bara skellt á bakið. Mér fannst við samt bregðast vel við því og koma fínir út í seinni hálfleikinn. Við vorum frábærir fyrstu 20 mínúturnar og það hefði verið gaman að ná að fylgja því betur eftir,“ sagði Einar, en Ólafur meiddist þegar Gunnar Malmquist braut á honum. Gunnar fékk tveggja mínútna brottvísun:

„Mér fannst þetta vera rautt spjald en dómararnir [Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson] vildu meina að hann hefði ekki ýtt við Ólafi í loftinu. Ef það eru einhverjir dómarar sem ég treysti í deildinni þá eru það þessir tveir, og þeir dæmdu frábærlega. Dómurinn skiptir heldur ekki öllu máli, heldur það að Ólafur meiðist illa og getur ekki spilað meira í leiknum. Hann datt illa á bakið og það er óljóst hvað þetta er. Hann athugaði hvort hann gæti hlaupið en átti í mesta basli með það. Það verður að koma í ljós á næstu dögum hvernig þetta þróast hjá honum,“ sagði Einar. Hann tók undir að lítið hefði skilið liðin að í kvöld:

„Ég er ekki ósáttur við okkar leik en við fórum illa með góð marktækifæri í seinni hálfleik og það varð okkur að falli. Leikurinn var mjög jafn og bæði lið að spila nokkuð vel, en þetta ræðst á 2-3 dauðafærum sem hann [Davíð Svansson] ver vel í markinu.“

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is