Fyrsti heimasigur Aftureldingar í ár

Stjörnumaðurinn Stefán Darri Þórsson sækir að Árna Braga Eyjólfssyni, Aftureldingu. ...
Stjörnumaðurinn Stefán Darri Þórsson sækir að Árna Braga Eyjólfssyni, Aftureldingu. Ernir Rafn Arnarson fylgist með. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afturelding vann annan leik sinn á árinu í Olís-deild karla í handbolta þegar liðið lagði Stjörnuna að velli í hörkuleik í Mosfellsbæ í kvöld, 30:28, í 24. umferð. Þetta var jafnframt fyrsti heimasigur Aftureldingar á árinu 2017.

Afturelding komst í 3:1 en gestirnir náðu fljótt forystunni og komust í 10:6 eftir tvö hraðaupphlaup í röð. Afturelding tók þá leikhlé en Stjarnan, með Ólaf Gústafsson fremstan í flokki, hélt áfram að skora heldur auðveldlega.

Ólafur var kominn með fimm sleggjumörk þegar hann meiddist á 18. mínútu, eftir að Gunnar Malmquist ýtti við honum í skoti svo Ólafur féll á bakið. Gunnar fékk réttilega tveggja mínútna brottvísun en Ólafur kom ekki meira við sögu í leiknum. Án Ólafs gekk sóknarleikur Stjörnunnar mun verr og Afturelding át forskotið upp hratt, en staðan í hálfleik var jöfn, 15:15.

Afturelding komst yfir í fyrsta sinn í langan tíma, 20:19, eftir þrjú lagleg mörk í röð frá Jóni Heiðari Gunnarssyni af línunni. Leikurinn var áfram í járnum og munurinn ekki meiri en eitt mark þar til Mikk Pinnonen kom Aftureldingu í 25:23 þegar sjö mínútur voru eftir og Stjarnan tók leikhlé.

Afturelding hélt forystunni áfram til enda og vann að lokum tveggja marka sigur. Guðni Már Kristinsson átti afar góðan leik fyrir heimamenn í sókninni og skoraði sjö mörk auk þess að leggja upp fyrir félaga sína.

Afturelding er því með 29 stig líkt og FH í 3.-4. sæti deildarinnar, en FH á leik til góða. Haukar eru efstir með 33 stig. Stjarnan er í 8. sæti með 19 stig, tveimur stigum frá botninum.

Afturelding 30:28 Stjarnan opna loka
60. mín. Leik lokið Heimamenn fagna sínum fyrsta heimasigri á þessu ári.
mbl.is