„ÍBV stýrði þessu algjörlega“

Stefán Árnason, þjálfari Selfoss.
Stefán Árnason, þjálfari Selfoss. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, sagði sína menn ekki hafa fundið þann baráttuhug í kvöld sem einkennt hefur liðið í síðustu leikjum í Olísdeild karla í handbolta. Selfoss steinlá á heimavelli gegn ÍBV, 27:36.

„Við mættum sterku Eyjaliði og þeir byrjuðu miklu betur en við og náðu strax tökum á leiknum. Við höfum verið að byrja af krafti í leikjunum í vetur en ÍBV stýrði þessu algjörlega í kvöld frá upphafi,“ sagði Stefán, en varnarleikur gestanna var frábær í fyrri hálfleik. 

„Þeir voru mjög agressívir og voru að gera okkur erfitt fyrir. Ekki ósvipað og við undirbjuggum okkur fyrir leikinn gegn Akureyri í síðustu umferð. Þá vorum við að fá góða færslu á boltann og góðar árásir en núna vorum við að enda sóknirnar mjög illa, eins og þeir vildu. Við tókum léleg skot og þeir voru að stela af okkur boltanum og fyrir vikið keyrðu þeir svolítið á okkur. Það vantaði miklu betra liðsspil og miklu betri takt í leikinn hjá okkur,“ bætti Stefán við.

Selfyssingar geta ekki dvalið lengi við úrslit kvöldsins því það er stutt í næsta leik, sex stiga leik gegn Stjörnunni á útivelli á fimmtudagskvöld.

„Það eru allir leikir mikilvægir. Það eru sex stig í boði enn þá og við ætlum okkur fleiri stig. Við náðum ekki sams konar frammistöðu í kvöld og í síðustu leikjum, en ef við náum að virkja aftur þennan baráttuhug og anda sem hefur einkennt okkur að undanförnu þá er það klárt að við munum ná í stig í lokaumferðunum,“ sagði Stefán Árnason að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert