Stórstjörnur leggja landsliðsskóna á hilluna

Daniel Narcisse og Thierry Omeyer fagna heimsmeistaratitlinum sem þeir unnu ...
Daniel Narcisse og Thierry Omeyer fagna heimsmeistaratitlinum sem þeir unnu á heimavelli í janúar. AFP

Tvær stórstjörnur úr franska landsliðinu í handknattleik til margra ára hafa ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna.

Þar er um að ræða markvörðinn Thierry Omeyer og skyttuna Daniel Narcisse sem hafa báðir leikið stórt hlutverk í frábæru gengi franska landsliðsins. Báðir hafa þeir orðið fjórum sinnum heimsmeistarar, þrisvar sinnum Evrópumeistarar og tvisvar sinnum ólympíumeistarar.

Hinn 40 ára gamli Omeyer lék sinn fyrsta landsleik árið 1995 og þeir eru í dag orðnir 365 talsins en hann hefur verið einn besti markvörður heims mörg undanfarin ár.

Narcisse, sem er 37 ára gamall, lék sinn fyrsta landsleik árið 2000 og leikirnir eru orðnir 309 talsins og í þeim hefur hann skorað 912 mörk.

Þeir voru báðir í liði Frakka sem hampaði heimsmeistaratitlinum á heimavelli í janúar.

mbl.is