Selfoss vann Val í háspennuleik

Elvar Örn Jónsson er markahæsti leikmaður Selfyssinga í vetur.
Elvar Örn Jónsson er markahæsti leikmaður Selfyssinga í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Selfyssingar unnu nauman sigur á Val, 29:28, á heimavelli í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Lokakaflinn var æsispennandi.

Selfoss komst uppfyrir Val og í 5. sæti deildarinnar með 24 stig en Valur er með 23 stig. Bæði lið fara í úrslitakeppnina og geta lent hvar sem er frá fimmta til sjöunda sætis.

Leikurinn fór rólega af stað en Valsmenn höfðu undirtökin þegar leið á fyrri hálfleikinn og höfðu verðskuldað forskot í hálfleik, 16:14.

Valsmenn höfðu áfram frumkvæðið í seinni hálfleik og leiddu með þremur mörkum þegar tólf mínútur voru eftir, 20:23. Þá skoruðu Selfyssingar fjögur mörk í röð og síðustu fimm mínúturnar voru æsispennandi. 

Vörn og markvarsla small saman hjá Selfyssingum þegar mest á reyndi og þeir skoruðu síðustu tvö mörk leiksins og tryggðu sér sigurinn þegar 20 sekúndur voru eftir..

Hergeir Grímsson skoraði 8 mörk fyrir Selfoss, Teitur Örn Einarsson 8/2 og Elvar Örn Jónsson 6. Einar Ólafur Vilmundarson varði 10/1 skot og átti frábæran lokakafla. 

Sveinn Aron Sveinsson og Atli Bachmann skoruðu báðir 7 mörk fyrir Val og Alexander Júlíusson 5. Sigurður Ólafsson varði 11 skot í marki Vals.

Selfoss 29:28 Valur opna loka
60. mín. Leik lokið Síðasta sókn Valsmanna fór algjörlega í handaskol. Fum og fát og klukkan rann út áður en þeir náðu skoti að marki. Þetta hefði getað lent hvoru megin sem var, en Selfyssingar voru betri síðustu tvær mínúturnar og skoruðu síðustu tvö mörk leiksins.
mbl.is