Erlingur flytur til Eyja

Arnar Pétursson og Erlingur Richardsson, t.v., þá þjálfarar ÍBV, eftir …
Arnar Pétursson og Erlingur Richardsson, t.v., þá þjálfarar ÍBV, eftir að liðið tryggði sér sigur í 1. deild karla í handknattleik fyrir fjórum árum. Erlingur er að flytja á ný til Vestmannaeyja. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Handknattleiksþjálfari Erlingur Richardsson hefur ákveðið að flytja til Vestmannaeyja þar sem hann hefur ráðinn tímabundið í starf skólastjóra við Grunnskóla Vestmannaeyja frá og með næsta skólaári. Uppi hefur verið orðrómur að samhliða flutningi Erlings á æskustöðvarnar þá muni hann taka við þjálfun meistaraflokksliðs ÍBV í handknattleik karla.

Erlingur er þrautreyndur þjálfari sem hefur síðustu fjögur árin þjálfað í Austurríki og í Þýskalandi, síðasta hjá Füchse Berlin.  Arnar Pétursson, núverandi þjálfari ÍBV, sagði í samtali við mbl.is að ekki standi til að Erlingur verði aðalþjálfari ÍBV-liðsins en ljóst sé að hann muni koma af fullum krafti inn í starf handboltans í Eyjum. „Með hvaða hætti það verður verður kynnt síðar,“ sagði Arnar.

„Heimakoma Erlings gerir ekkert annað en að efla okkur og okkar starf hjá ÍBV. Það er ekkert leyndarmál að um leið og Erlingur lenti í þessu fíaskói í desember [uppsögn hjá Füchse Berlin – innskot blm] fóru við strax að leita leiða til að fá hann og fjölskylduna alla leið heim til Eyja. Okkur tókst það og því fögnum við vel og innilega. Það er fengur í þeim hjónum fyrir íþróttafélagið ÍBV og samfélagið í Vestmannaeyjum,“ sagði Arnar ennfremur. Eiginkona Erlings er Vigdís Sigurðardóttir sem um árabil var markvörður í sigursælu kvennaliði ÍBV.

Spurður hvort hann hafi íhugað að hætta þjálfun ÍBV-liðsins eftir að það féll úr keppni fyrir Val í 8-liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta laugardag sagðist Arnar hafa velt því fyrir sér hvort komið væri að leiðarlokum hjá honum.  „Ég er ekki að hætta þótt það hafi hvarflað að mér fyrstu andartökin eftir tapið á móti Val á laugardaginn. Svo jafnar maður sig. Lífið heldur áfram og við sem höfum unnið að því undanfarin ár að gera ÍBV að einu mest spennandi félagi í handboltanum á Íslandi munum halda þeirri vinnu áfram. Heimakoma Erlings gerir ekkert annað en að efla okkur starf enn meira,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert