„Keyra og skjóta“

Laufey Ásta Guðmundsdóttir og stöllur í Gróttu hafa safnað til ...
Laufey Ásta Guðmundsdóttir og stöllur í Gróttu hafa safnað til sín titlum síðustu ár. mbl.is/Eggert

„Það var bara að keyra og skjóta, sem tókst,“ sagði Laufey Ásta Guðmundsdóttir, aðspurð hvað hefði flogið í gegnum huga hennar áður en hún tryggði Gróttu vítakeppni gegn Stjörnunni í dag með ævintýralegu jöfnunarmarki í seinni framlengingu leiksins.

Grótta vann vítakeppnina og er nú 1:0 yfir í einvígi liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta.

„Þetta er mjög ljúft, og staðfestir það líka að við getum alveg tekið þessa rimmu,“ sagði Laufey Ásta, en Grótta komst inn í úrslitakeppnina með frábærum endaspretti í Olís-deildinni, á meðan Stjarnan varð deildarmeistari. Grótta á hins vegar Íslandsmeistaratitil að verja.

Leikurinn í dag var hnífjafn frá fyrstu mínútu: „Þegar þetta endar svo með vítakeppni segir það ýmislegt um að liðin eru álíka sterk. Dagsformið var gott hjá báðum liðum og í svona rimmu skiptir það náttúrlega máli. Smáheppni og fleira spilar líka inn í. Í dag féll þetta hársbreidd okkar megin og við fögnum því,“ sagði Laufey Ásta.

Laufey virtist nokkuð afslöppuð þegar að vítakeppninni kom en hana vann Grótta 4:2. „Ég held að þetta sé okkar fyrsta vítakeppni, þannig að við bara byggjum ofan á þessa reynslu,“ sagði Laufey, sem tók hins vegar ekki undir að hún hefði verið eitthvað sérstaklega afslöppuð: „Nei, alls ekki. Við bara lúkkum voða kúl en innst inni held ég að það sé alltaf mikil togstreita,“ sagði hún hlæjandi.

mbl.is