Ömurlegt að tapa svona

Sólveig Lára Kjærnested.
Sólveig Lára Kjærnested. mbl.is/Eggert

„Þetta er ömurlegt. Ég hef aldrei tekið þátt í vítakeppni og það er ömurlegt að tapa svona,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested, fyrirliði Stjörnunnar, eftir hádramatískan leik við Gróttu í dag í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta.

Grótta vann leikinn eftir vítakeppni og er því 1:0 yfir í einvíginu. Helena Rut Örvarsdóttir virtist hafa tryggt Stjörnunni sigur í lok seinni framlengingarinnar en Laufey Ásta Guðmundsdóttir jafnaði metin og tryggði Gróttu vítakeppni:

„Hún skoraði eitthvert fáránlegt mark hérna, lengst utan af kanti. Ég hélt pínu að þetta væri komið en leikurinn er ekki búinn fyrr en  það er flautað og þetta var bara gott mark hjá henni. En við hefðum getað gert betur,“ sagði Sólveig, og átti þá við frammistöðu Stjörnunnar í öllum leiknum:

„Það er rosalega margt sem við gerðum ekki nægilega vel. Það voru margir leikmenn bara ekki með, þar á meðal ég. Ég var bara allt of „passív“ og þarf að skila miklu meira, líkt og fleiri. Við getum ekki látið Helenu draga vagninn endalaust,“ sagði Sólveig, en Helena skoraði 15 mörk. Brynhildur Kjartansdóttir var næstmarkahæst með 6 mörk, þrátt fyrir að spila aðeins skamman tíma áður en hún meiddist í lok venjulegs leiktíma:

„Brynhildur var frábær. Hún er ótrúlega kraftmikil og það er dýrmætt fyrir okkur að eiga hana til að koma svona inn og sprengja þetta upp. En svo kom þetta brot og hún var úr leik,“ sagði Sólveig. Hún segir Stjörnukonur ekki láta neinn bilbug á sér finna:

„Alls ekki, en við verðum að kafa svolítið ofan í þetta aftur. Við höfum verið að spila ágætlega en það þýðir ekkert að eiga eitthvað inni ef við drögum það ekki fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert