„Skemmtilegt og krefjandi verkefni“

Axel Stefánsson.
Axel Stefánsson. mbl.is/Golli

„Það er alveg ljóst að okkar bíður strembið verkefni en um leið mjög skemmtilegt,“ sagði Axel Stefánsson þjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um mótherja Íslendinga í undankeppni Evrópumótsins.

Ísland er í 5. riðlinum ásamt Danmörku, Tékklandi og Slóveníu og hefst undankeppnin í lok september á þessu ári en úrslitakeppnin fer fram í Frakklandi í desember 2018.

„Ég fylgdist spenntur með drættinum og var að setjast niður að finna leiki með þessum liðum sem við mætum. Það er alveg ljóst að þessi þrjú lið sem erum með í riðlinum eru allt mjög góð en öll voru þau með í lokakeppninni í fyrra. Ég tel að við höfum fengið besta liðið úr þriðja styrkleikaflokknum sem er Slóvenía.

Það var betra fyrir okkur að fá Tékkana úr öðrum styrkleikaflokknum heldur að fá lið eins og Rússland eða Ungverjaland. Það skipti svo eiginlega litlu máli hver mótherjinn var sem við fengum úr fyrsta styrkleikaflokknum. Það verður gaman að eiga við Danina sem enduðu í fjórða sæti á EM í fyrra. Ég neita því ekki að ég hefði gjarnan viljað fá Norðmennina,“ sagði Axel við mbl.is.

„Þetta verður skemmtilegt og krefjandi verkefni fyrir okkur og nú þurfum við að nýta tímann vel áður en undankeppnin hefst. Ég á eftir að meta það betur hvernig þessar þjóðir henta okkar liði. Öll þessi lið spila mikið framliggjandi varnarleik og við þurfum að vel yfir leiki hjá þeim áður en undankeppnin fer af stað,“ sagði Axel.

mbl.is